Ferðir frá Orlando

Millilendingar til eða frá Orlando.

Uppfært 6. febrúar 2016, viðbætur um Key West

Eins og flestum er kunnugt falla ferðir Flugleiða til Orlando niður yfir sumartímann.  Engu að síður halda margir til Orlando á sumrin í gegnum New York eða Boston, jafnvel  Washington. Hér verður fjallað lítillega um Boston leiðina.

Skynsamlegt er að gista á leiðinni en reyna ekki að ná flugi alla leið á sama deginum. Ef ætlunin er að gista aðeins einu sinni á leiðinni er best að gista á hótelum rétt hjá flugvellinum en fara ekki inn í borgina. Oftast ganga sérstakar hótel rútur á milli flugvallarins og helstu hótela sem kosta ekkert ( nema tips)  en það er ekki hægt að stóla á slíkt um helgar. Um helgar er unnt að fá ódýrari gistingu en á móti þarf hugsanlega að kaupa leigubíl á milli sem kostar um $ 40 aðra leiðina.

Skemmtilegur möguleiki er að taka bílaleigubíl og halda til Cape Ann þar sem eru bæirnir Gloucester og Rockport og gista þar í tvær nætur. Um 50 km eru frá Logan flugvelli til Gloucester, en ef menn leggja af stað milli 15 0g 17 er rétt að gera ráð fyrir lengri ferðatíma en 2 klst.  Það  tók reyndar næstum 2 klst að komast frá bílaleigustæðinu við flugvellinn  til hótels í Gloucester, en við lentum í ” rush hour” og þurftum oft að bíða í bílaröð.  Hins vegar tók ekki nema rúma klst að  fara til baka frá Gloucester þegar lagt var að stað kl 11 að morgni.

 

H

Höfnin í Gloucester

Það er talsvert líf í miðbæ Gloucester og margt fólk á ferli, fjölmargar krár, kaffihús og veitingarstaðir. Smá vísir er að listamannahverfi í Smith Cove, vík utarlega í höfninni og kallast Rocky Neck Art Colony. Þarna eru listmálarar, skartgripasmiðir og veitingarhús. Við mælum með veitingarhúsinu Rudder, þar var besti maturinn sem við snæddum á svæðinu, þótt þjónustan mætti vera glaðlegri. Á myndinni að neðan sést þetta veitingarhús séð frá höfninni.

Veitingarhúsið Rudder í Rocky Neck Art Colony

Ef dvalið er í Cloucester er óhjákvæmilegt að kíkja á aðaltúristagildru svæðisins, Bears Skin götuna í Rockport. Rockport er örstutt frá Gloucester og íbúahverfi hvors bæjar ná saman. Bærinn er mjög fallegur, minnir á Disneyland en þarna er mikill túrismi, hægt að kaupa lifandi humar og ýmislegt túrista grams.

Bear Skin gatan í Rockport

Rétt er benda sérstaklega á tónleikasal þeirra heimamanna sem er ekki stór en afar glæsilegur. Nokkrir Íslendingar sem hafa verið þar á tónleikum, eru afar hrifnir af húsinu, sérstaklega bakgrunni sviðsins sem er gluggi opin að hafinu.

Tónleikahúsið í Rockport

Í Boston getur verið mun dýrara að gista en í Gloucester. Í okkar tilviki,  sem dvöldum í tvær nætur, fékkst bílaleigubíll með öllu fyrir mismuninn. Ef fólk hefur komið áður til Boston er tilvalið að bæta þessu svæði við ferðalagið.

Það er eindregið mælt með GPS tækjum milli flugvallarins og Gloucester. Boston er gömul borg með flóknu og snúnu vegakerfi. Mikið er um hringtorg sem heitir á ” amerísku ” Rotary, þeir hafa ekki viljað taka upp enska heitið ”  Roundabout “. Sérstaklega þarf að aðvara  íslenska ökumenn við að Bostonbúar virðast lítt temja sér að gefa stefnuljós þegar þeir vilja beygja úr innri hring og best að hafa strangar gætur á öllum bílum ef farið er í hringtorg.

 

 

Key West.

Ef farið er til Key West er þægilegt að gista eina nótt á leiðinni. Um 600 km eru á milli Orlando og Key West. Miami er í hæfilegri fjarlægð fyrir þennan áfanga. Ef fólk vill kíkja á djammið á Miami Beach þá er unnt að fá ódýr hótel þar og um leið fá menn bílastæði sem getur verið vandamál í nágrenni við Ocean Drive. Við mælum  með því að gist sé í nánd við Lincoln Road á Miami Beach, Hotel Flora er góður kostur, morgunverður er innifalinn og stutt að ganga út á Ocean Drive eða á Lincoln Road sem er aðalverslunagata Miami Beach. Þar er mikið mannlif, fjöldi tískuverslana, veitingarstaða og á sunnudögum eru markaðstorg.  Á Espinola Way eru skemmtilegir veitingastaðir, þar ber hæst Havana 1957. Þar getur verið löng bið eftir borðum.

IMG_6539

Næturlífið á Ocean Drive, Miami Beach

 

Ocean Drive er gata sem liggur  meðfram ströndinni með mörgum hinna frægu Art Deco húsum og skemmtistöðunum. Þarna er frekar dýrt, búast má við tvöföldu verði miðað við veitingastaði í Orlando. Best er til öryggis að halda sig á aðalgötunni og forðast ströndina eftir að farið er að skyggja.

Ef lagt er af stað þaðan um hádegi er unnt að ná til Key West fyrir kvöldið þótt stoppað sé á leiðinni.  Frá því að meginlandi Flórida sleppir, eru rúmir 200 km til Key West. Tvær nætur er oft lágmark hjá hótelum inn í bænum en það er síður en svo kvöð á þessum stað. Það er margt að sjá á leiðinni og engin ástæða til að flýta sér.

Hægt er að fá hefðbundna gistingu á nýtísku hótelum í Key West en við mælum með litlu hótelunum í gamla bænum. Þau eru mjög sérkennileg svo ekki sé meira sagt. Oft hefur hótelið byrjað í einu húsi, síðan er húsið við hliðina keypt, og það sem er á bak við og þetta endar með að hótelið samanstendur af húsaþyrpingu, gjarnan með sundlaug í miðjunni og göngustígum á milli húsanna. Allt þetta gefur þessu mikinn sjarma og karakter.

Eden House hótelið , heimasíða edenhouse.com,  er  dálítið fjarri Duval Street en reiðhjól eru leigð á hótelinu og mjög snjallt að nýta sér það. Annað hótel sem við mælum með, en er í dýrari kantinum er Marquesa Hótelið, heimasíðan er marquesa.com. Það er mjög stutt frá miðbænum,  en á hvorugu hótelinu er morgunverður innif.

Veitingastaðir á Key West eru í sérflokki í Flórida. Allir verða að fara á Blue Heaven veitingarstaðinn þar sem borðin eru óstöðug í mölinni og skrautlegar hanar og hænur með unga vappa um á milli borða.  Staðurinn á langa sögu sem mikið lastabæli og þar var Hemmingway í hnefaleikum. Oftast er löng bið eftir borðum. Heimasíðan er www.blueheavenkw.com . Annar frábær staður í sömu götu en lengra niður eftir, við Petonia Street, Santiago´s Bodega, heimasíða www.santiagosbodega.com . Þar þarf af bóka borð á annatíma.  Marquesa Cafe er í sama húsi og Marquesa Hótelið og þar þarf líka að bóka. Azur veitingarstaðurinn er við hliðina á Eden house hótelinu er líka mjög góður.  Einnig má nefna Roof Top Cafe sem er nálægt höfninni, heimasíða rooftopcafekeywest.com. Að síðustu nefni ég Sarabeth´s heimasíða sarabethskeywest.com sem er rétt hjá Marquesa Hótelinu. Ef menn eru í Key West á sunnudegi þá hafa þeir sérstaka marinera kjúklinga á þeim degi sem nánast er slegist um.  Þeir byrja að selja réttina um kl 18 og halda því áfram á meðan eitthvað er eftir. Þessi réttur er aðeins seldur á sunnudögum.  Allir þessir staðir eiga það sameiginlegt að vera ekki við Duval Street. Fjöldi annarra veitingarstaða leynast í húsasundum gamla bæjarins en þessir staðir sem eru nefndir hér, eru staðir sem við höfum borðað á og getum mælt með.

Á kvöldin fara nær allir á Mallory Square, heimasíða mallorysquare.com til að fylgjast með sólsetrinu. Þar er mikið mannlíf ca klst fyrir sólsetur, trúðar, markaðsbásar með handverki, spámenn og verslanir. Eftir sólsetur fara margir yfir á Duval Steet þar sem stanslaust fjör ríkir langt fram á nótt.  Þar eru fjöldi veitingarstaða, verslana og bara. Allir kíkja inn á Sloppy Joe, sem var mikill vinur Hemmingway. Vefmyndavél er fyrir utan Sloppy Joe sem er “life” og gaman að kíkja á. Slóðin er  liveduvalstreet.com.

Við  mælum sérstaklega með sólarlagssiglingum á seglskútum sem leggja af stað frá bryggjunum sem eru til hægri þegar gengið er Duval Street í áttina að höfninni.  Miðar eru keyptir fyrirfram og eru til sölu seinnipart dags.

IMG_6739

Seglskútan bíður sólarlagsins

 

Siglingin tekur rúma 2 til 3 klst, drykkir eru fríir um borð.  Spennandi er að skoða vitann, hús Hemmingway, fjársjóðsbúðina og þarna er líka skemmtilegt fiðrildasafn. Fara má skemmtilega ferð með traktor lest og  vespum og rúnta  um. Passa þarf að aka ekki á hænurnar með ungum sem eru út um allar götur.

IMG_6781

Á ytri höfninni í Key West, skemmtiferðaskip leggur frá höfninni

Að lokum er ein aðvörun. Mikil hátíð samkynhneigðra er haldin árlega á Key West og er nefnd Fantasy Fest, venjulega í Október. Á þessum tíma er illmögulegt að fá gistingu, auk þess að það sem þá ber fyrir augu er ekki allra.  Í stuttu máli, þá eru þar engar hömlur á einu eða neinu. Allt fer þó mjög friðsamlega fram eins og oftast er háttur Bandaríkjamann.  Key West er mikið i uppáhaldi hjá samkynhneigðum frá gamalli tíð, það hefur hækkað gæði veitingarstaða og margir slíkir reka hótel og aðra þjónustu. Það er hins vegar ekki mikið áberandi og hegðan samkynhneigðra í Key West er til fyrirmyndar. Almennt er þjónustulipurð mjög mikil og almennilegheit fólks eru afar áberandi.

 

Ferð með skemmtiferðaskipum.

Unnt er fá hagstæð tilboð ef bókað er á síðustu stundu.  Ýmislegt bendir til þess að ferðir séu dýrari ef pantað er frá Íslandi á netinu, en ef bókað er í húsinu þá kemur fram ip tala sem skráð er í Flórida. Oftast má þó reikna með að þeir klefar sem eru á útsölu séu inni í skipinum eða neðarlega. Ef menn ætla að njóta ferðarinnar þá mæli ég með að taka klefa með svölum á efri hæðum. Ef fleiri einn 1 klefi er tekinn þá er klókt að reyna að fá samliggjandi klefa. Þá er oft  hægt að opna hurð á milli eða skilrúm á svölum og þannig er hægt að ganga á milli klefanna án þess að fara út á gang. Ferð í 7 nætur á í svalaklefa ( tveir í klefa) kostar um $ 2700 dollarar eða um $ 385 per nótt. Allur matur, morgunverður og hádegismatur, kaffi og hlaðborð eru innfalið en oftast þarf að borga drykki aukalega og það sem pantað er af börum.

Stór bílastæði eru á hafnarbakkanum en verð fyrir 7 nætur eru um $ 200.  Unnt er að láta sækja sig og skila aftur á flest hótel eða flugvöll og spara þannig bílaleigubíla yfir siglinartímann. Skip sem leggja frá Port Caneveral fara ekki eins langt inn í Karabíska hafið eins og þau sem fara frá Fort Lauderdale og Miami vegna þess að um sólarhring tekur að sigla td. frá Port Caneveral til Nassau á Bahamaeyjum. Þá er farið syðst til St Thomas. Ef menn leggja hins vegar á sig að fara til Miami þá er auðveldarar að fá ferðir þar sem farið til Hollensku eyjanna, Key West og sennileg í náinni framtíð Havana á Kúbu.

Snjallast er að skella sér til San Juan á Puerto Rico og fara um borð þar. Þá fá menn dvöl í San Juan aukreitis, borgin er mjög falleg, fjöldi góðar veitingastaða. Borgin er mjög gömul og minni á borgir í Argentínu og sumir segja Havana. Kosturinn að hefja ferðina það er að skemmtiferða skipin fara sunnar og ná til Hollensku eyjanna og margra annarra staða sem þau ná ekki á einni viku frá Canaveral eða Miami.